Heilsuvörufyrirtæki greiðir götu Kristjáns Einars

Kristján Einar mátar bíl Newman Wachs í Sebring í Flórída.
Kristján Einar mátar bíl Newman Wachs í Sebring í Flórída.

Unnið er að því að fjármagna þátttöku Kristjáns Einars Kristjánssonar með  Newman Wachs í bandarísku Atlantic-mótaröðinni svonefndu. Bandarískt heilsuvörufyrirtæki, Now, gerði honum kleift að fara til æfinga hjá liðinu og á hann í viðræðum við það um frekari aðstoð.

Vegna kólnandi samskipta Breta og Íslendinga vegna bankahruns og óhagstæðrar gengisþróunar var ákveðið að Kristján Einar sleppti síðustu mótshelginni í formúlu-3 í Bretlandi.

Sömu helgi var hann hins vegar mættur með sínu fólki til Bandaríkjanna til funda með heilsuvöruframleiðandanum Now um framtíðarsamstarf í kappakstri. Now liðsinnti Kristjáni Einari í formúlu-3 og  íþróttanæringarfræðingar fyrirtækisins hafa unnið mikið með honum sl. hálft ár.

„Eddie Wachs og Paul Newman stofnuðu liðið af ástríðu fyrir kappakstri og maður finnur greinilega hvað nafn þessa heimsfræga leikara, kappakstursmanns og hugsjónamanns er stórt í Bandaríkjunum,” segir Kristján Einar.

„Það er mikill heiður að vera í síðasta hópnum sem þeir vinirnir völdu saman. En það er ekki nóg að hafa lið það þarf líka að hafa fjármagn og annað dæmi um lánsemi mína í fjármálasvartnættinu var aðkoma bandaríska heilsuvörurisans NOW. Það fyrirtæki gerði mér kleyft að komast í prófanirnar á Sebring og  hefur lýst yfir vilja til samstarfs við mig og Newman Wachs á næsta ári. Nú er bara að loka málinu og það ætti að gerast á næstu tveimur vikum,” segir Kristján Einar.

Hann fer að nýju til liðs við Newman Wachs til æfinga í lok janúar. Gangi fjármögnunardæmið svo upp mun Kristján Einar að öllum líkindum verða á ráslínunni á Newman Wachs bíl er tímabilið hefst í Savannah í Gerogíuríki 15. mars.

Atlantic-mótaröðin fer fram á 11 mótshelgum og lýkur í Laguna Seca brautinni 11. október. Fer keppnin fram samhliða keppni í American Le Mans-röðinni (ALMS), næstvinsælustu akstursíþrótt Bandaríkjanna. Áhorfendur á þá keppni, bæði á brautum og í sjónvarpi, eru einungis fleiri á Nascar-kappaksturinn. Að jafnaði fylgjast vel á annað hundrað þúsund áhorfendur með á mótsstað.

Kristján Einar við keppnisbíl Newman Wachs sem hann ók í …
Kristján Einar við keppnisbíl Newman Wachs sem hann ók í Sebring í Flórída.
Kristján Einar ræðir við (f.v.) Brian Halahan liðsstjóra, Don Halliday …
Kristján Einar ræðir við (f.v.) Brian Halahan liðsstjóra, Don Halliday tæknistjóra og Eddie Wachs liðseiganda eftir aksturslotu í Sebring.
Auðkýfingurinn Eddie Wachs kom á einkaþotu sinni til Flórída til …
Auðkýfingurinn Eddie Wachs kom á einkaþotu sinni til Flórída til að fylgjast með Kristjáni Einari.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert