Schumacher keppir í stað Massa í Valencia

Michael Schumacher hefur ákveðið að taka keppnishjálminn ofan af snaga og keppa fyrir Ferrari í stað Felipe Massa í Evrópukappakstrinum í Valencia á Spáni eftir háklfa fjórðu viku. Þetta staðfestir Ferrariliðið í dag og segir Schumacher nú undirbúa sig undir keppnina.

Í tilkynningu Ferrari segir að Schumacher sé „reiðubúinn“ að snúa aftur til keppni í formúlu-1 og myndi þjálfa sig sérlega til að vera líkamlega reiðubúinn þegar að kappakstrinum í Valencia kæmi.

Schumacher hætti keppni í formúlu-1 við vertíðarlok 2006. Hann slasaðist á mótorhjóli snemma ársins og munu sérfræðingar Ferrari ganga úr skugga um það í þjálfun hans á næstunni að hann líði engin eftirköst þess.

Í gær sagði umboðsmaður Schumacher það af og frá að hann kæmi aftur til keppni en hann stóðst ekki mátið er Ferrari leitaði til hans vegna meiðsla Massa.

„Það mikilvægasta er að allar fréttir af líðan Felipe eru í jákvæða veru. Ég óska honum alls hins besta,“ sagði Schumacher í dag. Hann var í höfuðstöðvum Ferrari í dag vegna væntanlegrar keppni sinnar. Og eftir fund með liðsstjóranum Stefano Domenicali og Luca di Montezemolo sagði hann, að vegna tryggðar við Ferrari gæti hann ekki leitt ástandið eftir slys  Massa hjá sér. „Og sem keppnismaður hlakka ég mjög til þessarar áskorunar,“ sagði hann.

Schumacher hefur ekki ekið 2009-bíl Ferrari. Síðast ók hann keppnisbíl liðsins við bílprófanir í Barcelona í apríl í fyrra, eða fyrir um 15 mánuðum.


Schumacher kemur Ferrari til hjálpar vegna fjarveru Massa af völdum …
Schumacher kemur Ferrari til hjálpar vegna fjarveru Massa af völdum meiðsla. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert