Mosley: Gengisfall vinni Alonso titilinn

Massa á undan Alonso í Hockenheim.
Massa á undan Alonso í Hockenheim.

Max Mosley, fyrrverandi forseti Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA), segir að það myndi jafngilda gengisfalli formúlunnar vinni Fernando Alonso heimsmeistaratitil ökuþóra með sjö stiga mun eða minna.

Mosley skírskotaði til liðsfyrirmæla Ferrari í þýska kappakstrinum, þar sem Felipe Massa var fyrirskipað að víkja og hleypa Alonso fram úr. Það færði Alonso sigur í mótinu og styrkti stöðu hans í keppninni um titilinn að mun.

Alonso fékk 25 stig úr kappakstrinum í Hockenheim í stað 18 ef Massa hefði ekki þurft að víkja. FIA-forsetinn fyrrverandi er á því, að sú ákvörðun Ferrari kunni að eiga eftir að grafa eitthvað undan íþróttinni verði Alonso meistari.

„Mér fannst að svipta hefði átt Alonso aukastigunum sem hann fékk vegna liðsfyrirmælanna. Það er algjört lágmörk því færi svo að Alonso ynni titilinn með minni mun en sem svarar aukastigunum sjö - ólöglega að mínu áliti - þá myndi það rýra gildi titilsins. Þetta er mín persónulega skoðun,“ sagði Mosley við rás 5 hjá breska útvarpinu, BBC.Alonso fagnar sigri í Suður-Kóreu.
Alonso fagnar sigri í Suður-Kóreu.
mbl.is

Bloggað um fréttina