Rosberg bestur í þurri braut

Rosberg á ferð í Silverstone í dag.
Rosberg á ferð í Silverstone í dag. mbl.is/afp

Nico Rosberg hjá Mercedes ók hraðast á seinni æfingunni í Silverstone. Ólíkt því sem gerðist í morgun voru skúraskýin á burt og brautin þurr.

Næsthraðast ók Mark Webber hjá Red Bull sem tvisvar hefur fagnað sigri í breska kappakstrinum í Silverstone. Var hann rúmlega 0,2 sekúndum lengur með hringinn en Rosberg. Þriðja besta tímanum náði svo heimsmeistari ökumanna, Sebastian vettel.

Vegna rigningar og bleytu var lítið um akstur á fyrri æfingunni en dæmið snerist alveg við á þeirri seinni. Fyrri hlutann prófuðu ökumenn dekk í litlum sprettum en seinni helming tímans notuðu þeir til að líkja eftir kappakstri.

Heimamennirnir Paul di Resta hjá Force India og Lewis Hamilton hjá Mercedes urðu í fjórða og fimmta sæti á lista yfir hröðustu hringi en sá síðarnefndi var tæpleag 0,7 sekúndum lengur með  hringinn en liðsfélagi hans Rosberg.

Í sjötta og sjöunda sæti urðu Toro Rosso-félagarnir Daniel Ricciardo og Jean-Eric Vergne. Fyrsta tuginn fylltu svo Adrian Sutil hjá Force India, Romain Grosjean hjá Lotus og Fernando Alonso hjá Ferrari. Æfingin varð að engu fyrir liðsfélaga hans Felipe Massa sem flaug snemma út úr brautinni og skall á öryggisvegg.

mbl.is