Ótrúlegur hringur Hamiltons

Hamilton í tímatökunum í Silverstone.
Hamilton í tímatökunum í Silverstone. mbl.is/afp

Það var eins og Lewis Hamilton hjá Mercedes kæmi sem elding af himnum ofan er hann vann ráspól breska kappakstursins í Silverstone. Ótrúlegur hringur sem hann náði, sá langbesti alla helgina, og tryggði liði sínu fremstu rásröðina því Nico Rosberg varð í öðru sæti.

Ráspóllinn er sá annar sem Hamilton vinnur á árinu, sá fyrri vanst í Kína, og sá 28. á ferlinum. Stendur hann því einstaklega vel að vígi fyrir heimakappakstur sinn, sem hann stefnir að og dreymir um að vinna.

Hamilton var óhress með bíl sinn eftir æfingarnar í gær en hefur tekist að vinna úr því með glæsilegum árangri. Hann er sá eini sem ekið hefur hringinn í Silverstone undir 90sekúndum, undir þau mörk skaust hann með lokahringnum lygilega. Fögnuðu liðsmenn Mercedes árangri sinna manna að tímatökunni lokinni og dönsuðu af gleði í bílskúr liðsins.

Eftir óskaplega spennandi tímatökur varð niðurstaðan sú, að á rásröðinni fyrir aftan Hamilton og Rosberg verða ökumenn Red Bull, Sebastian Vettel og Mark Webber, í þriðja og fjórða sæti.

Hörmung hjá Ferrari

Tímatakan var hörmung fyrir Ferrari því Fernando Alonso varð aðeins tíundi og Felipe Massa komst ekki einu sinni í lokalotuna, varð tólfti. 

Sömuleiðis reið annað topplið, Lotus, ekki feitum hesti frá henni þar sem Romain Grosjean og Kimi Räikkönen urðu í áttunda og níunda sæti.

Paul di Resta hjá Force India náði fimmta besta tímanum, Daniel Ricciardo á Toro Rosso þeim sjötta besta og Adrian Sutil hjá Force India þeim sjöunda besta.

Jenson Button náði besta sæti McLaren en aðeins því ellefta, liðsfélagi hans Sergio Perez varð fjórtándi. Finninn Valtteri Bottas hjá Williams komst ekki áfram úr fyrstu lotu, liðsfélagi hans Pastor Maldonado ruddi hónum á síðustu sekúndu úr 16. sæti í það 17.



Hamilton fagnar ráspólnum í Silverstone.
Hamilton fagnar ráspólnum í Silverstone. mbl.is/afp
Hamilton fagnar ráspólnum í bílskúrareininni í Silverstone.
Hamilton fagnar ráspólnum í bílskúrareininni í Silverstone. mbl.is/afp
Hamilton milli Vettels (t.v.) og Rosberg (t.h.) eftir tímatökurnar í …
Hamilton milli Vettels (t.v.) og Rosberg (t.h.) eftir tímatökurnar í Silverstone. mbl.is/afp
Hamilton hafði áhyggjur af bíl sínum í gær og sagði …
Hamilton hafði áhyggjur af bíl sínum í gær og sagði hann eigi nógu góðan. Hér ræðir hann við tæknimann milli aksturslota á æfingunni í morgun. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert