Nonni Mæju hitti úr fyrstu sjö þristunum

Jón Ólafur Jónsson setti niður átta þrista í Seljaskóla.
Jón Ólafur Jónsson setti niður átta þrista í Seljaskóla. mbl.is/Eva Björk

Jón Ólafur Jónsson var stigahæstur Hólmarar þegar Snæfell sigraði ÍR 110:77 í Breiðholtinu í kvöld í Dominos-deild karla í körfuknattleik. 

Nonni Mæju eins og hann er jafnan kallaður hitti úr fyrstu sjö þriggja stiga skotum sínum í leiknum þar af voru fimm í fyrri hálfleik. Alls setti hann niður átta þriggja stiga skot í aðeins níu tilraunum. 

Nonni var þó langt frá félagsmetinu hjá Snæfelli sem ekki er heiglum hent að bæta því Sean Burton hitti úr sextán þriggja stiga skotum af tuttugu í bikarleik í Hveragerði árið 2010. 

Skoraði Nonni alls 30 stig í leiknum og var stigahæstur ásamt bakverðinum snjalla Wance Cooksey.

mbl.is