Ricciardo fljótastur

Daniel Ricciardo hjá Red Bull í Barcelona í dag.
Daniel Ricciardo hjá Red Bull í Barcelona í dag. mbl.is/afp

Daniel Ricciardo hjá Red Bull ók hraðast við bílprófanir formúluliðanna í Barcelona í dag, en hann var 10 þúsundustu úr sekúndu fljótari með hringinn en sá sem næsthraðast ók, Kimi Räikkönen hjá Ferrari.

Besti hringur Ricciardo mældist 1:24,574 mínútur en honum náði hann á mýkri dekkjunum um miðjan dag. Räikkönen náði og sínum besta hring aðeins nokkrum mínútum seinna.

Ricciardo líkti eftir kappakstri á æfingum dagsins og skiptist þar á að brúka báðar dekkjategundirnar sem í boði voru; mjúk og meðalhörð.

Felipe Massa hjá Williams var einnig með mýkri dekkin undir er hann setti sinn besta hring. Það gerði hann þó ekki fyrr en undir lok dagsins er brautarhitinn hafði lækkað frá því sem  var um miðjan dag.

Sergio Perez hjá Force India átti fjórða besta hringinn á umbreyttum bíl frá í fyrra. Lewis Hamilton mætti til leiks fyrr en hann ætlaði eftir veikindi í gær. Leysti hann Nico Rosberg af eftir hádegið til að hlífa honum við þrálátum hálsverk. Setti Hamilton fimmta besta tíma dagsins og var 0,6 sekúndum hraðskreiðari en Rosberg sem líkti eftir kappakstri í morgun.

Fernando Alonso bætti 50 hringjum við í sarpinn hjá McLaren en hann ók í stuttum lotum í dag við prófanir á vélkerfum bílsins.

Heimsmeistarinn í GP2-formúlunni, Jolyon Palmer, nýtti tækifærið sem gafst með fyrsta reynsluakstri fyrir Lotus og bætti keppnisvegalengd við annars mjög takmarkaða reynslu sína á formúlu-1 bíl.

Hægastir í dag voru Marcus Ericsson hjá Sauber og Carlos Sainz Jr. hjá Toro Rosso en báðir glímdu við bilanir í bílum sínum í miðri braut síðdegis með þeim afleiðingum að akstur var stöðvaður um stundarsakir. Sainz hafnaði í malargryfju og Ericsson varð að leggja bíl sínum á beina upphafs- og lokakafla brautarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert