Lotusinn aftur fljótastur í Barcelona

Pastor Maldonado hjá Lotus sker beygjurnar ákaft í Barcelona í …
Pastor Maldonado hjá Lotus sker beygjurnar ákaft í Barcelona í dag. mbl.is/epa

Öðru sinni í vikunni ók Pastor Maldonado hjá Lotus hraðast við bílprófanir formúluliðanna í Barcelona í dag. Hann ók einnig hraðast í fyrradag, á fyrsta degi æfingalotunnar sem lýkur á sunnudag.

Maldonado setti besta tíma vikunnar er hann renndi sér brautina á  1:24,348 mínútum og var fjórum tíundu úr sekúndu fljótari en næsti maður, Max Verstappen hjá Toro Rosso.

Verstappen var hraðskreiðastur fyrir hádegi og ók þá á ofurmjúku dekkjunum sem ökumenn höfðu úr að spila. Eftir hádegi sinnti hann langakstri og ók alls 129 hringi yfir daginn.

Lewis Hamilton hjá Mercedes átti þriðja besta hringinn en var 1,3 sekúndum lengur með hann en Verstappen. Ók hann þá á meðalhörðum dekkjum.

Marcus Ericsson hjá Sauber átti fjórða besta hringinn og Sebastian Vettel hjá Ferrari þann fimmta besta.

Daniil Kvyat hjá Red Bull varð morgninum í að æfa þjónustustopp en líkti svo eftir kappakstri síðdegis á leið til sjötta besta tímans.

Williamsliðið æfði þjónustustopp frá morgni til kvölds og óku ökumennirnir Felipe Massa og Valtteri Bottas hálfan daginn hvor. Milli þeirra að brautartíma varð Pascal Wehrlein reynsluökumaður Force India.

Vélarbilun háði McLaren í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert