Bottas í toppsætinu

Valtteri Bottas á ferð í Barcelona.
Valtteri Bottas á ferð í Barcelona. mbl.is/afp

Valtteri Bottas hjá Williams setti hraðasta hring síðasta dags reynsluaksturs formúluliðanna í Barcelona.

Bottas skellti mýkri dekkjagerðinni undir rétt fyrir hádegi og setti þá hraðasta hring dagsins í gær, ók á 1:23,063 mín, sem er þriðji besti tími vetrarins í Barcelona. Aðeins Nico Rosberg (1:22,729) og Lewis Hamilton (1:23,022) hjá Mercedes hafa gert betur.

Sebastian Vettel hjá Ferrari (1:23,469) var 0,4 sekúndum á eftir Bottas en hann varði deginum að mestu í að líkja eftir kappakstri og lagði 129 hringi að baki. Viðfangsefni Felipe Nasr hjá Sauber (1:24,023) var hið sama og ók manna mest, eða 159 hring. Er það mesta dagsverk nokkurs ökumanns við vetraræfingarnar.

Annar nýliði, Max Verstappen, notaði síðustu klukkustund æfingarinnar til hraðaprófana á mýkri dekkjunum og náði fjórða besta hringnum (1:24,527). Glímdi hann annars við tæknibilanir og hið sama var að segja um Daniel Ricciardo hjá Red Bull (1:24,638). Gat hann samt ekið keppnisvegalengd eftir að gert hafði verið við bilunina sem var í rafeindabúnaði bílsins.

Sergio Perez ók nýja keppnisbíl Force India í fyrsta sinn og linnti ekki látum fyrr en á annað hundrað hringja lá í valnum (1:25,113).

Dagurinn hjá Nico Rosberg (1:25,186) fór í að prófa mismunandi uppsetningar fyrir loftafl bílsins og fjöðrunarkerfi. Ók hann 148 hringi og brúkaði hann nær eingöngu harðari dekkjategundirnar tvær sem til boða voru.

McLaren-Honda lauk ekki æfingum á háu nótunum. Langvarandi kerfisprófanir takmörkuðu akstur Jensons Button við einungis tvo hringi fyrir hádegishlé. Ástandið lagaðist síðdegis er hann gat bætt 30 hringjum í sarpinn (1:25,327).

Pastor Maldonado (1:28,272 mín.) ók Lotusbílnum ekki lengi því hann flaug úr brautinni og hafnaði á öryggisvegg rétt eftir hádegishlé.




 

Valtteri Bottas æfir dekkjastopp við reynsluaksturinn í Barcelona.
Valtteri Bottas æfir dekkjastopp við reynsluaksturinn í Barcelona. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert