Dæmdur í sæti ökumanns

Giedo van der Garde bregst við dómnum fyrir utan hæstarétt …
Giedo van der Garde bregst við dómnum fyrir utan hæstarétt Viktoríufylkis í Melbourne í morgun. mbl.is/afp

Snúin staða er komin upp rétt fyrir fyrsta formúlukappakstur ársins því dómstóll í Melbourne dæmdi ökumann í sæti sem Sauberliðið hafði ráðið annan mann í. Á þessu stigi er óvíst hvernig Sauber bregst við en liðið gæti allt eins dregið sig úr keppni.

Ökumaðurinn Giedo van der Garde hefur átt í þrætu við Sauber sem hann sakaði um samningsrof með því að láta sig víkja úr sæti keppnismanns. Hélt hann sig vera með gildandi ráðningarsamning í höndum.

Undir það tók sérstakur gerðardómstóll íþróttanna, með aðsetur í Sviss, með úrskurði í vetur. Er allt leit út fyrir að Sauber ætlaði að virða það að vettugi hóf van der Garde mál á hendur liðinu í Melbourne, en þar fer fyrsta formúlumót ársins fram um komandi helgi.   

Dómurinn kvað upp sinn dóm í morgun og aftur tapaði Sauberliðið sem dómarinn fyrirskipaði að skyldi hleypa Hollendinginn keppa. Sagði hann að því yrði fylgt eftir að það yrði gert.

Van der Garde segist „tilbúinn, viljugur og fær“ um að keppa um helgina og kvaðst vona að Sauberstjórarnir féllust á fund með sér og sætismátun.

Van der Garde keppti fyrir Caterham árið 2013 en hélt síðan til Sauber sem varaökumaður 2014 og með samning sem hljóðaði upp á starf keppnismanns 2015. Ók hann á sjö æfingum í fyrra. Undir lok ársins ákvað Sauber að losa sig við alla ökumenn sína og réði Svíann Marcus Ericsson og Brasilíumanninn Felipe Nasr í þeirra stað fyrir komandi keppnistíð, 2015.

Vonbrigði Sauberstjóra

Sauberstjórinn Monisha Kaltenborn lýsti vonbrigðum sínum með niðurstöðuna í stuttri yfirlýsingu eftir að dómur féll. „Við þurfum að taka okkur smá tíma til að sjá hvaða áhrif þetta hefur á vertíðarbyrjun okkar og ákveða hvernig við bregðumst við,“ sagði Kaltenborn.

„Við getum ekki stefnt liði okkar í hættu eða öðrum ökumönnum á brautinni með því að tefla fram óundirbúnum ökumanni í bíl sem hefur verið skraddarasniðinn fyrir aðra ökumenn,“ bætti hún við og boðaði frekari tíðindi er á daginn líður. 

Marcus Ericsson við æfingaakstur Sauber í Barcelona í síðustu viku.
Marcus Ericsson við æfingaakstur Sauber í Barcelona í síðustu viku. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert