Sauber tapaði áfrýjun

Giedo van der Garde yfirgefur dómshús í morgun, annan daginn …
Giedo van der Garde yfirgefur dómshús í morgun, annan daginn í röð sem sigurvegari í máli á hendur Sauberliðinu. mbl.is/afp

Sauberliðið beið ósigur í dómstólum annan daginn í röð í morgun er ástralskur áfrýjunarréttur staðfesti dóm hæstaréttar Viktoríuríkis frá í gær þess efnis, að Sauber bæri að tefla Guido van der Garde fram sem ökumanni í ástralska kappakstrinum. 

 Þetta þýðir í raun, að þrír ökumenn eru ráðnir til að aka tveimur keppnisbílum Sauber í ár, en fyrsta mót ársins fer fram í Melbourne í Ástralíu um helgina. Þetta er þriðja dómsstigið sem Sauber tapar samningadeilunni við van der Garde fyrir.

Áður hafði sérlegur áfrýjunarréttur íþróttanna (CAS) í Sviss dæmt ökumanninum í vil. Er Sauber réði hann sem vara- og þróunarökumann fyrir síðasta keppnistímabil fylgdi í kaupunum að hann yrði keppnisökumaður í ár.

Sauber ákvað undir lok síðasta tímabils að skipta um keppnisökumenn og ráða Marcus Ericsson og nýliðann Felipe Nasr í stað Adrians Sutil og Esteban Gutierrez. Við það virðast stjórar Sauberliðsins hafa gleymt klásúlum samningsins við hollenska ökumanninn van der Garde.

Á þessu stigi er óljóst hvernig Sauber losar sig út úr þeim vanda að þurfa láta þrjá ökumenn keyra tvo bíla í einu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert