Vilja Sauberstjóra í fangelsi

Sauberstjórinn Monisha Kaltenborn (t.h.) ræðir við aðstoðarmenn sína í bílskúr …
Sauberstjórinn Monisha Kaltenborn (t.h.) ræðir við aðstoðarmenn sína í bílskúr Sauber í morgun. mbl.is/afp

Lögmenn Giedo van der Garde hafa farið þess á leit við hæstarétt Viktoríuríkis í Melbourne í Ástralíu að hann sendi Sauberstjórann Monishu Kaltenborn í fangelsi.

Í fyrradag dæmdi dómurinn að Sauber skyldi láta van der Garde keppa fyrir liðið á vertíðinni. Vísaði Sauber dómi þessum til áfrýjunardómstóls Ástralíu sem staðfesti hæstaréttardóminn daginn eftir.

Þar með hafði Sauber tapað deilunni vegna ráðningarsamnings van der Garde í þrígang. Liðið hefur látið hjá líðast að fá Alþjóða akstursíþróttasambandið til að endurnýja keppnisskírteini hans og segja lögmenn ökumannsins að Sauber hafi ekki uppfyllt dómsorð hæstaréttarins.

Hafa þeir því krafist þess að Kaltenborn verði annað hvort sektuð vegna þess eða dæmd í fangelsi og eigur Saubers við kappakstursbrautina í Albertsgarði gerðar upptækar.

Taka átti þessar kröfur fyrir hjá réttinum í dag klukkan 15:15 að staðartíma en var frestað um klukkustund til að gefa deiluaðilum meiri frest til að reyna ná sáttum.

Van der Garde mætti í bílskúr Sauber í morgun til sætisprófunar klæddur í keppnisgalla sænska ökumannsins Marcus Ericsson. Bílar liðsins fóru hins vegar aldrei úr bílskúrnum meðan á fyrri æfingu dagsins stóð.

Sauber gat ekki tekið þátt í fyrri æfingunni í Melbourne …
Sauber gat ekki tekið þátt í fyrri æfingunni í Melbourne vegna dómsmála. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert