Van der Garde víkur

Felipe Nasr leggur af stað í aksturslotu á æfingu í …
Felipe Nasr leggur af stað í aksturslotu á æfingu í Melbourne í morgun. mbl.is/afp

Vopnahlé hefur skapast í deilu Giedo van der Garde og Sauberliðsins og hefur ökumaðurinn hollenski samþykkt að keppa ekki í ástralska kappakstrinum meðan unnið er að endanlegri lausn þrætunnar.

Það verða því Marcus Ericsson og Felipe Nasr sem keppa fyrir Sauber um helgina í Melbourne. Van der Garde hefur undanfarið unnið mál á hendur Sauber á þremur dómsstigum. Í öllum tilvikum hefur verið dæmt, að hann sé samningsbundinn ökumaður liðsins árið 2015. 

Sauber ákvað samt að ráða Ericsson og Nasr undir lok síðasta keppnistímabils og mun þar hafa ráðið að þeir keyptu í raun sæti sín með miklu styrktarfé sem fjársnautt liðið hafði mikla þörf fyrir.

Af ótta við að Sauber myndi þrátt fyrir allt reyna sniðganga framgang réttvísinnar  lögðu lögmenn Van der Garde fram kröfu fyrir dómi þess efnis í gærmorgun, að hald yrði lagt á eigur liðsins í Albertsgarði í Melbourne, liðsstjórinn Monisha Kaltenbaum sektuð eða stungið í steininn.

Í kjölfar viðræðna deiluaðila næturlangt staðfestu þeir fyrir dómi í dag, að samkomulag hefði tekist um að van der Garde gæfi frá sér rétt sinn til að keppa í Melbourne.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert