Verstappen yngsti stigaskorarinn

Nýliðinn Max Verstappen hjá Toro Rosso var ánægður að kappakstrinum í Sepang í Malasíu loknum. Engan skal undra það því þar varð hann yngsti ökumaður sögunnar til að vinna stig í formúlu-1.

Verstappen er aðeins 17 ára og miðað við frammistöðu hans í akstrinum virðist það barnslega auðvelt að keyra formúlubíl. Hann varð sjöundi í mark, einu sæti á undan liðsfélaga sínum Carlos Sainz Jr., sem einnig er nýliði, og átti liðið því báða bíla í mark í stigasæti.

„Ég er mjög ánægður með mín fyrstu stig og að klára keppni í sjöunda sæti,“ sagði Verstappen sem hóf keppni af þriðju rásröð.

„Fyrstu hringirnir gengu brösuglega og ég átti í basli á mýkri dekkjunum. Því stoppaði ég snemma til dekkjaskipta, yfir á hörðu dekkin. Eftir það virkaði bíllinn fullkomlega sem var frábært.

Ég átti í ágætum bardögum við nokkra ökumenn sem var skemmtilegt. Það var mjög heitt en mér leið alltaf vel og réði alveg við það. Niðurstaðan er frábær fyrir liðið, hefðum ekki getað betur,“ sagði Verstappen einnig.

Gamla aldursmetið var einungis ársgamalt en það var í eigu Daniil Kvyat hjá Red Bull. Þar á undan var metið í eigu Fernando Alonso, allar götur frá því hann keppti með Renault.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert