Sutil á óuppgerðar sakir við Sauber

Adrian Sutil.
Adrian Sutil. mbl.is/afp

Adrian Sutil á enn óuppgerðar sakir við Sauber vegna samningsrofs í vertíðarlok 2014. Eiga umboðsmenn hans í viðræðum við stjórnendur liðsins og freista þess að semja um lyktir málsins.

Sutil gekk til liðs við Sauber fyrir vertíðina 2014 eftir að hafa keppt fyrir Force India um skeið. Liðið ákvað hins vegar að losa sig bæði við hann og Esteban Gutierrez í vertíðarlok og réði Marcus Ericsson og Felipe Nasr í þeirra stað fyrir yfirstandandi vertíð, 2015.

Við upphaf keppnistíðar þurfti Sauber að svara til saka í stríði um samningamál við hollenska ökumanninn Giedo van der Garde, sem hafði betur í réttarsölum en samdi að því búnu um bætur og vék til hliðar.

Óvíst er hvort mál Sutils fari einnig fyrir dóm. Umboðsmaður hans, Manfred Zimmermann, staðfestir að verið sé að reyna að semja um friðsamlega lausn „vandamálsins“. Sutil gekk í síðastas mánuði til liðs við Williams sem varaökumaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert