Rosberg fljótastur á seinni degi

Nico Rosberg á leið til sigurs í Austurríki á sunndag. …
Nico Rosberg á leið til sigurs í Austurríki á sunndag. Liðsfélagi hans Lewis Hamilton í humátt á eftir. mbl.is/afp

Formúluliðin luku í dag tveggja daga reynsluakstri í brautinni í Spielberg í Austurríki. Eins og í kappakstrinum á sunnudag setti Nico Rosberg hjá Mercedes besta brautartímann í heildina.

Frekari bílprófanir munu ekki eiga sér stað á keppnistímabilinu ef frá er talinn æfingaakstur liðanna á keppnishelgum.

Margir ökumenn lögðu að baki á annað hundrað hringja í dag en keppnislengd í Austurríki er 71 hringur. Annað var uppi á teningnum í gær er rigning setti strik í reikning framan af æfingunni.

Rosberg ók 117 hringi og þann besta á 1.09,113 mínútum á ofurmjúku dekkjunum. Næstbesta tímann átti þegar upp var staðið þriðji ökumaður Ferrari, Esteban Gutierrez. Var hann 0,8 sekúndum lengur í förum en Rosberg, besti hringur hans af 110 mældist á 1.09,931 mín.

Var þetta aðeins í annað skiptið sem Gutierrez ekur Ferrarifáknum, áður fékk hann að spreyta sig einn dag við bílprófanir í Barcelona.

Valtteri Bottas hjá Williams hafði ekið hraðast á hádegi en varð á endanum þriðji á 1.10,029 mín. eftir samtals 79 hringi. Manna mest ók Marco Wittmann hjá Toro Rosso eða 158 hringi og mældist sá besti á 1.10,103 mín.

Fimmta besta hringinn átti Pascal Wehrlein á Force India en besti hringur hans af 132 mældist á 1.10,253 mín. Í gær ók hann fyrir Mercedes og átti þá besta tíma dagsins, 1.11,005 mín. eftir 67 hringi.

Jolyon Palmer ók Lotusbílnum 110 hringi, þann besta á 1.10,373 mín. Sjöunda besta tímann setti svo Fernando Alonso hjá McLaren, 1.10,718 mín. Ólíkt síðustu tveimur mótum entist bíllinn vel nú því Alonso lagði 104 hringi að baki. Í gær ók Stoffel Vandoorne 77 hringi og þann besta á 1.12,530 mín.

Í áttunda og níunda sæti á lista dagsins yfir hröðustu hringi voru svo Daniel Ricciardo hjá    Red Bull (1.10,757) eftir 116 hringi og Felipe Nasr hjá Sauber (1.10,922) eftir 138 hringi. Bíll Ricciardo entist ekki út æfinguna alla því hann stoppaði í miðri braut með miklum reykjarbólstrum stígandi upp undan afturendanum þegar klukkustund var eftir.

Í gær voru það aðallega varamenn liðanna sem fengu að spreyta sig að undanteknum þeim Max Verstappen hjá Toro Rosso og Romain Grosjean hjá Lotus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert