Grosjean til Haas

Romain Grosjean varð þriðji í belgíska kappakstrinum í Spa 23. …
Romain Grosjean varð þriðji í belgíska kappakstrinum í Spa 23. ágúst sl. mbl.is/afp

Frakkinn Romain Grosjean hjá Lotus hefur staðfest að hann verði áfram keppandi í formúlu-1 á næsta ári en hefur ekki viljað segja með hvaða liði. Öruggar heimildir herma að hann hafi ráðið sig til bandaríska liðsins Haas, sem þreytir frumraun sína í formúlu-1 á næsta ári.

Á blaðamannafundi fyrir kappaksturinn í Singapúr kvaðst Grosjean hafa ákveðið framhaldið en neitaði að tjá sig um það frekar. Þar sem lítið sem ekkert er um laus sæti virtist við blasa að hann héldi áfram hjá Lotus - sem virðist eiga yfirtöku Renault yfir höfði sér - eða fara til Haas.

Heimildamenn nátengdir Grosjean staðfestu beinlínis í Singapúr að franski ökumaðurinn færi til Haas. Bandaríska liðinu hefur verið áfram um að ráða til sín reyndan ökumann úr formúlu-1. Á ítölsku keppnishelginni í Monza sagði liðsstjórinn Gene Haas, að hann myndi því aðeins ráða keppenda frá öðru liði að hann væri að „stökkva frá borði sökkvandi skips“.

Íþróttastjóri Renault,  Cyril Abiteboul, þykir hafa staðfest brottför Grosjean er hann sagði  við frönsku sjónvarpsstöðina Canal+,  að því miður hefði Renault ekki gert það að skilyrði í samningaviðræðum um yfirtöku Lotusliðsins að hann myndi áfram þar á bæ.

Allt bendir til að liðsfélagi Grosjean hjá Haas verði brasilíski ökumaðurinn Esteban Gutierrez, þriðji ökumaður Ferrari. Er hann nokkurs konar skiptimynt í samningum sem kveða á um að Ferrari leggur Haas til aflrás í bíla sína auk annarrar tæknilegrar aðstoðar.

Romain Grosjean virðist á förum frá Lotus.
Romain Grosjean virðist á förum frá Lotus. mbl.is/afp
Romain Grosjean á Lotusbílnum í tímatökunni í Singapúr.
Romain Grosjean á Lotusbílnum í tímatökunni í Singapúr. mbl.is/afp
mbl.is