Leyndarmálinu ljóstrað upp

Grosjean, í miðjunni, með tveimur helstu forsprökkum Haasliðsins, Gunther Steiner …
Grosjean, í miðjunni, með tveimur helstu forsprökkum Haasliðsins, Gunther Steiner liðsstjóra (t.v.) og liðseigandanum Gene Haas (t.h.) mbl.is/afp

Þá hefur Haas-liðið tilkynnt það sem allir bjuggust við; að Romain Grosjean yrði aðal ökumaður þess í formúlu-1 á næsta ári.

Grosjean er 29 ára og hefur 78 mót í formúlu-1 að baki. Tíu sinnum hefur hann komist á verðlaunapall, nú síðast fyrir mánuði í belgíska kappakstrinum. Hann er að ljúka sinni fimmtu keppnistíð með Lotusliðinu.

Fyrstu kynni Grosjean af keppnisbíl nýja formúluliðsins verða í Barcelona 1. til 4. mars næstkomandi. Önnur prófunarlota fer svo fram í sömu braut 15. til 18. mars en sem stendur er gert ráð fyrir því að formúlutíðin 2016 hefjist 3. apríl í Melbourne. Á því gætu þó orðið breytingar en mótaskráin er ekki endanlega klár.

Með glæsilega afrekaskrá

Grosjean hefur unnið mót og titla í öllum kappakstursflokkum fram að þátttöku sinni í formúlu-1. Árið 2003 hóf hann bílakappakstur eftir að hafa keppt á körtum og vann öll mótin 10 í svissnesku mótaröðinni í Formúlu Renault 1.6. 

Tveimur árum seinna, 2005,  vann hann titilinn í Formúlu Renault í Frakklandi með því að vinna einnig 10 mót. Árið 2006 fór hann til keppni í Evrópuröðinni í formúlu-3. Einnig keppti hann í tveimur mótum í bresku formúlu-3 en í þeim báðum vann hann ráspól, setti hraðasta hring og vann svo bæði.

Önnur keppnistíð í Evrópuröðinni í f-3 leiddi af sér fjóra ráspóla, sex mótssigra og meistaratitilinn. Hann hlaut frama árið 2008 með keppni í GP2-röðinni, næstu grein undir formúlu-1. Vann hann fjögur mót af 10 og hreppti fyrsta titil Asíuraðarinnar.

Árið 2008 var Grosjean ráðinn sem reynsluökumaður til Renault og í ágúst 2009 tók hann við starfi keppnismanns af Nelson Piquet og ók við hlið Fernando Alonso. Nýtti hann sér þá reynslu til keppni í mörgum greinum árið 2010. Vann Auto GP-meistaramótið með fjórum sigrum, sjö pallsætum og þremur ráspólum. Einnig vann hann tvö mót í FIA GT1 mótaröðinni og tvö pallsæti í GP2-röðinni.  Alhliða færni sýna brúkaði hann enn frekar með keppni í sólarhringskappakstrinum í Le Mans og jafnlöngu þolmóti í Spa-Francorchamps.

Árið 2011 sneri Grosjean aftur til keppni í GP2. Það ár vann hann aftur Asíuraðartitilinn en síðan var sú mótaröð lögð niður. Einnig vann hann heimsmeistaramótsröðina í GP2, sem haldin er samhliða formúla-1. Vann hann fimm mót af tíu. Loks sneri hann 2011 aftur til Renault sem reynsluökumaður. Árið eftir fékk það nýtt nafn, Lotus, og þar á bæ hefur hann verið allt þar til í dag.

Grosjean, í miðjunni, með tveimur helstu forsprökkum Haasliðsins, Gunther Steiner …
Grosjean, í miðjunni, með tveimur helstu forsprökkum Haasliðsins, Gunther Steiner liðsstjóra (t.v.) og liðseigandanum Gene Haas (t.h.) mbl.is/afp
Romain Grosjean.
Romain Grosjean. mbl.is/afp
Romain Grosjean (t.h.) og liðsstjóri Haas-liðsins, Gunther Steiner.
Romain Grosjean (t.h.) og liðsstjóri Haas-liðsins, Gunther Steiner. mbl.is/afp
Gene Haas, eigandi Haas F1 Team, kynnir nýráðinn aðalökumann liðsins, …
Gene Haas, eigandi Haas F1 Team, kynnir nýráðinn aðalökumann liðsins, Romain Grosjean, í höfuðstöðvum liðsins í Bandaríkjunum. mbl.is/afp
Romain Grosjean klæddist klæðnaði Haas í tilefni dagsins.
Romain Grosjean klæddist klæðnaði Haas í tilefni dagsins. mbl.is/afp
mbl.is