Nýliðarnir sýna sig

Nýja formúlu-1 liðið, Haas F1 Team, svipti keppnisbíl sinn hulunni í Barcelona í dag, en þar tekur liðið þátt í bílprófunum sem hefjast á morgun, mánudag.

Bíllinn var hannaður jöfnum höndum í bílsmiðju liðsins í Banbury í Englandi og í höfuðstöðvum liðsins í Kannapolis í Bandaríkjunum. Hlaut það liðveislu frá ítalska kappakstursbílasmiðnum Dallara við hönnun og smíði undirvagns bílsins.

Haas F1 hefur notið tæknilegs samstarfs við Ferrari-liðið og fær meðal annars vélarnar, gírkassana og ýmsa aðra íhluti í keppnisbílana frá ítalska liðinu.

Útlit bílsins er í bland grátt, svart og rautt. 

Haas hefur átt góðu gengi að fagna í bandarískum kappakstursgreinum og segist hann vona með þátttöku í formúlu-1 auka á orðstír fyrirtækisins og styrkja um veröld víða. Hið sama er að segja um verkfræðifyrirtæki eigandans, Haas Automation. Segir Gene Haas takmark sitt að gera það að alþjóðlegu vörumerki.

Ökumenn þessa nýja liðs verða Frakkinn Romain Grosjean og Mexíkóinn Esteban Gutierrez. Grosjean mun frumaka bílnum í Barcelona á morgun.

mbl.is