Hülkenberg í toppsætið

Nico Hülkenberg hjá Force India setti besta brautartímann í Barcelona í dag, þriðja degi fyrstu bílprófanalotu formúluliðanna fyrir komandi keppnistíð.

Topphringnum náði Hülkenberg á nýju ofurmjúku dekkjunum sem ökumenn fá tækifæri til að spreyta sig á í fyrsta sinn. Var Hülkenberg skammt frá besta tíma vikunnar, ók á 1:23,110 mín., en besta tímann á Sebastian Vettel á Ferrari frá í gær, 1:22,810 mín.

Næstbesta tímanum náði Romain Grosjean hjá Haas og þeim þriðja Kimi Räikkönen á Ferrari. Hülkenberg ók alls 99 hringi, eða hálfa aðra keppnisvegalengd, Grosjean 82 og Räikkönen 76. Átti hann framan af degi í vandræðum vegna bilunar í eldsneytiskerfi.

Kevin Magnussen ók fyrir Renault í fyrsta sinn og setti fjórða besta tímann. Ók hann 111 hringi. Aðeins Carlos Sainz hjá Toro rosso (161) og Felipe Nasr hjá Sauber (115) óku lengra. Fjórði maðurinn sem rauf 100 hringja múrinn var Felipe Massa hjá Williams, sem ók 109 hringi og átti 10. besta hringinn á 1:26,712 mín.

Eftir risalangan akstur í gær og fyrradag skipti Mercedes deginum á milli Nico Rosberg og Lewis Hamilton, og hið sama verður uppi á teningnum á lokadeginum, á morgun. Rosberg ók fram að hádegi, alls 74 hringi og átti fimmta besta tímann í lok dags (1:26,084). Hamilton tók við eftir hádegi og lagði að baki 88 hringi, þann besta á 1:26,421 sem var áttundi besti tími dagsins.

Jenson Button (1:26,919) var eini ökumaðurinn í dag sem ekki kláraði a.m.k. fulla kappaksturslengd. Varð hann að hætta akstri síðdegis vegna leka í vökvakerfi.

Nýliðinn Rio Haryanto spreytti sig í fyrsta sinn hjá Manor og átti að vonum lakasta hring dagsins, á 1:28,249 mín. Var með öðrum orðum fimm sekúndum lengur með hringinn en Hülkenberg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert