Bottas bestur í dag

Valtteri Bottas hjá Williams ók hraðast við bílprófanir dagsins í Barcelona og sagðist eftir það vera 100% tilbúinn í fyrsta kappakstur ársins, sem fram fer í Melbourne í Ástralíu 20. mars.

Besti hringur Bottas mældist 1:23,261 mínúta og var hann 0,361 sekúndu fljótari í förum en Lewis Hamiltonen hjá Mercedes sem næsthraðast fór. Þriðja besta hringinn átti svo danski ökumaðurinn Kevin Rasmussen hjá Renault.

Bottas notaði mýkri dekk en Hamilton er þeir settu sína bestu hringi.  Magnussen ók hringinn best á 1:23,933 en fleiri ökumenn komust ekki niður fyrir 1:24 í dag.

Sebastian Vettel hjá Ferrari átti fjórða besta tímann (1:24,611) en hann gat ekið að mestu vandræðalaust í dag eftir brösugan dag liðsfélaga hans Kimi Räikkönen í gær.

Jenson Button setti fimmta besta tímann á batnandi McLarenbílnum, en hann varð þó að dveljast um skeið í bílskúr sínum fyrir hádegi vegna bilunar ífjöðrunarbúnaði.

Aðeins hálfur tíundi úr sekúndu skildi systurliðin Red Bull og Toro Rosso að. Hafði Daniel Ricciardo með Renault-vél betur í rimmu við Ferrariknúinn bíl Carlos Sainz, sem aftur á móti ók manna mest í dag, eða 166 hringi.

Sergio Pérez á Force India setti áttunda besta tímann, var einu sæti framar á lista yfir hröðustu hringi en Nico Rosberg, sem ók Mercedesbílnum seinni part dagsins.

Pascal Wehrlein hjá Manor bætti fyrir takmarkaðan akstur liðsins í gær vegna bilana og kláraði rúmlega keppnislengd í dag. Marcus Ericsson ók nýja Saubernum í fyrsta sinn í dag. Besti tími hans var 1:27, 487 eða rúmlega fjórum sekúndum lakari en topptími Bottas.

Vandræði héldu áfram hjá Haas, annan daginn í röð. Esteban Gutierrez ók aðeins ein hring áður en hætt var vegna óútskýrðar bilunar. Hefur liðið aðeins náð 24 hringjum í brautinni í dag og í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert