Með besta tímann til þessa

Kimi Räikkönen hjá Ferrari ók hraðast við bílprófanir í Barcelona í dag og setti besta tímann sem náðst hefur frá því reynsluaksturinn hófst í byrjun síðustu viku.

Räikkönen prófaði í dag flestar dekkjagerðirnar sem í boði voru en náði sínum hraðasta hring á nýju ofurmjúku dekkjunum, sem tekin verða í notkun frá og með Mónakókappakstrinum.

Ók Räikkönen á 1:22,765 mínútum eða 0,1 sekúndu hraðar en liðsfélagi hans Sebastian Vettel gerði í síðustu viku. Í öðru sæti í dag varð Felipe Massa á Williams sem brúkaði ekki eins mjúk dekk, en tími hans var 1:23,193 mín. Þriðja besta hringinn átti svo Nico Hülkenberg á Forc India, 1:23,251 mín.

Eins og Räikkönen prófaði Hülkenberg nýju ofurmjúku dekkin í dag, og hið sama gerði einnig Max Verstappen hjá Toro Rosso, sem ók á 1:23,382 mín. Ók hann manna mest í dag, eða 159 hringi.

Áfram deildu Nico Rosberg og Lewis Hamilton deginum á milli sín og báðir óku rúmlega kappaksturslengd. Rosberg átti fimmta besta hring dagsins og Hamilton þann ellefta, báðir á meðalhörðum dekkjum, ekki þeim tveimur mýkstu.

Óhætt er að segja að tímamót hafi orðið hjá McLaren því Fernando Alonso ók hvorki meira né minna en 118 hringi sem samsvarar tveimur keppnisvegalengdum. Besti hringur hans mældist 1:24,870 mín. og varð hann í sjöunda sæti af 12 á lista yfir hröðustu hringi. 

Haas-liðið glímdi áfram við bilanir en RomainGrosjean kláraði þrátt fyrir það 78 hringi. Til samanburðar komst bíllinn aðeins 24 hringi samtals í gær og fyrradag vegna bilana. Í dag var það meðal annars rafdrifin afturbremsa.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert