Massa naut varnarinnar í þaula

Felipe Massa á ferð á Williamsbílnum í Sjanghæ í dag.
Felipe Massa á ferð á Williamsbílnum í Sjanghæ í dag. AFP

Felipe Massa hjá Williams taldi sig ekki hafa getað gert betur í kappakstrinum í Sjanghæ en hann varð sjötti í mark. Sagði hann það hafa verið „frábæran árangur“ að standast atlögur Lewis Hamilton hjá Mercedes og getað haldið honum fyrir aftan sig.

Hamilton gerði margar tilraunir til að komast fram úr Massa en án árangurs. „Ég er virkilega ánægður, frábær kappakstur fyrir mína parta, jafnvel þótt ég hafi ekki náð á verðlaunapall. Ég hefði ekki getað verið framar,“ sagði Massa að keppni lokinni.

Hann hóf kappaksturinn í tíunda sæti og vann sig fram úr nokkrum bílum þegar á fyrstu metrunum eftir ræsingu. Á lokasprettinum fékk hann ekki varist þeim Daniel Ricciardo og Kimi Räikkönen en tókst hins vegar að verjast atlögum Hamiltons.

Meðan Massa sótti fram á við seig á ógæfuhliðina hjá liðsfélaga hans Valtteri Bottas. Hann var fimmti á rásmarki en dalaði og náði aðeins tíunda sæti. Munaði þar miklu, að hann missti nokkra ökumenn fram úr sér í ringulreiðinni og samstuði í fyrstu beygju eftir ræsingu.

Felipe Massa hjá Williams í Sjanghæ.
Felipe Massa hjá Williams í Sjanghæ. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert