Rosberg vann rimmuna

Nico Rosberg gengur inn í mótorheimili Mercedes að tjaldabaki í …
Nico Rosberg gengur inn í mótorheimili Mercedes að tjaldabaki í Hockenheim eftir lokaæfinguna fyrir tímatökurnar. AFP

Nico Rosberg var í þessu að vinna ráspól þýska kappakstursins í Hockenheim eftir æsispennandi rimmu við félaga sinn Lewis Hamilton. Þriðji varð Damniel Ricciardo á Red Bull.

Hamilton var ögn fljótari í bæði fyrstu og annarri lotu tímatökunnar en Rosberg lét heldur betur til sín taka í þeirri þriðju. Í fyrri atlögunni að tíma setti hann met á tveimur fyrstu brautarköflunum og stefndi á topptíma, en skyndilega hægði hann á sér og rauk beint inn í bílskúr án þess að klára hringinn.

Í ljós kom að hann hafði glímt við rafeindakerfisbilun og eftir að komist hafði verið fyrir þann vanda gerði hann seinni atlögu sína að tíma. Aftur ók hann gríðarlega vel á fyrstu tveimur köflunum en tapaði ögn tíma á þeim þriðja.

Þegar upp var staðið kom það ekki að sök því Hamilton náði ekki að slá honum við þótt hart sækti og litlu munaði á þeim.

Þar með vinnur Rosberg 27. ráspól ferilsins og hefur hann þá í tímatökunum og þremur æfingum helgarinnar ekið hraðar en allir aðrir. Verður það honum eflaust mikil hvatning að hefja heimakappakstur sinn á ráspól en hann vann þýska kappaksturinn þegar hann fór síðast fram, árið 2014 í Hockenheim. 

Lokatími Rosberg (1:14,363) var 0,1 sekúndu betri en tími Hamiltons. Ricciardo var svo rúmum 0,2 brotum á eftir Hamilton og Max Verstappen á Red Bull 0,1 sekúndu á eftir liðsfélaga sínum.

Sebastian Vettel hefur ekki fundið sig mjög í síðustu mótum og að þessu sinni ók Kimi Räikkönen hraðar. Varð Finninn í fimmta sæti og Vettel í því sjötta. Munaði á þeim 0,2 sekúndum.

Í sætum sjö til tíu urðu Nico Hülkenberg á Force India, Valtteri Bottas á Williams, Sergio Perez á Force India og Felipe Massa á Williams.

Nico Rosberg í Hockenheim rétt fyrir tímatökuna í dag.
Nico Rosberg í Hockenheim rétt fyrir tímatökuna í dag. AFP
Stjórnborð Mercedes undirbýr merkjatöflu til að gefa Nico Rosberg upplýsingar …
Stjórnborð Mercedes undirbýr merkjatöflu til að gefa Nico Rosberg upplýsingar um stöðu mála. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert