Rosberg náði ráspólnum

Nico Rosberg á ferð í Spa-Francorchamps.
Nico Rosberg á ferð í Spa-Francorchamps. AFP

Nico Rosberg hjá Mercedwes var í þessu að vinna ráspól belgíska kappakstursins, þann 28. á ferlinum og þriðja í röð. Annar varð heimamaðurinn Max Verstappen hjá Red Bull og þriðji Kimi Räikkönen hjá Ferrari.

Árangur Verstappen kemur einna mest á óvart, ekki síst þar sem hann gat lítið sem ekkert ekið á lokaæfingunni í morgun vegna bilunar í gírkassa. Þetta er í fyrsta sinn á ferlinum sem hann kemst á fremstu rásröð í tímatöku. Hann er á heimavelli þótt keppni í nafni Hollands, en móðir hans er belgísk.

Räikkönen klúðraði fyrri tilraun sinni með utanvegarakstri en gerði engin mistök í seinni tilrauninni og skaust þá upp fyrir liðsfélaga sinn Sebastian Vettel, sem hefur keppni á morgun af fjórða rásstað.

Í sætum fimm til tíu - í þessari röð - urðu Ricciardo, Sergio Perez og Nico Huylkenberg hjá Force India, Valtteri Bottas hjá Williams, Jenson Button hjá McLaren og Felipe Massa hjá Williams.

Fimmfaldir meistarar aftastir

Á öftustu rásröð á morgun hefja tveir ökumenn keppni sem sín á milli hafa unnið heimsmeistaratitil ökumanna fimm sinnum. Þeir Fernando Alonso hjá McLaren og Lewis Hamilton hjá Mercedes. Þurfa þeir að taka út refsingar vegna nýrra íhluta á aflrás bíla sinna, þar á meðal margföld vélarskipti.

Hamilton ók bara í fyrstu lotu tímatökunnar og nógu hægt til að falla út að henni lokinni. Bíll Alonso bilaði er hann var á leið út úr bílskúrareininni svo hann fékk engan tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert