FIA aðvarar Verstappen

Max Verstappen óhress með eitthvað í bílskúr Red Bull á …
Max Verstappen óhress með eitthvað í bílskúr Red Bull á seinni æfingunni í gær, föstudag. AFP

Max Verstappen hlaut „milda aðvörun“ fyrir framferði sitt á kappakstursbrautinni er keppnisstjóri Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA), Charlie Whiting, tók hann á eintal í Monza í gærmorgun.

Þetta staðfestir liðsstjóri Red Bull, Christian Horner. Verstappen átti í útistöðum við ökumenn  Ferrari í fyrstu beygju kappakstursins í Spa-Francorchamps síðasta sunnudag og varðist síðan grimmdarlega öllum tilraunum Kimi Räikkönen til að taka fram úr honum síðar í kappakstrinum.

„Charlie var áhugasamur um að sýna honum upptökur. Hann hlaut mildilega aðvörun og honum tjáð, að æki hann eins aftur yrði honum refsað,“ sagði Horner. Hann bætir við að hann vilji sjá Verstappen áfram aka sókndjarft. „Hin óskoraða grimmd hans er það sem gerir hann svo aðlaðandi ökumann. Við gleymum því oft að hann er aðeins 18 ára og bara á þriðja ári í bílakappakstri,“ segir Horner.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert