Magnussen styrkir stöðu sína

Kevin Magnussen á ferð í kappakstrnium í Singapúr.
Kevin Magnussen á ferð í kappakstrnium í Singapúr. AFP

Danski ökumaðurinn Kevin Magnussen hjá Renault styrkti stöðu sína innan liðsins með því að vinna stig í kappakstrinum í Singapúr. Segir hann stigið vera „hvata“ fyrir Renault sem átt hefur erfiða daga á vertíðinni.

Í níunda sinn á árinu féllu báðir bílar Renault úr leik í fyrstu umferð tímatökunnar í Singapúr. Leit ekki vel út með árangur þar sem Magnussen hóf keppni af 17. rásstað og Jolyon Palmer af þeim nítjánda. 

Magnussen vann sig hins vegar jafnt og þétt fram á við og kom í mark í tíunda sæti. Jók hann því við sex stiga skor sitt frá í rússneska kappakstrinum þar sem hann varð sjöundi í mark.

„Ég er mjög ánægður fyrir hönd alls liðsins því þetta er hvati fyrir okkur,“ sagði Magnussen eftir kappaksturinn. Liðsfélagi hans glímdi við hæga púnteringu og hafnaði í 15. sæti.

Renault er í níunda sæti í keppni liðanna, 21 stigi á eftir Haas en á undan Manor og Sauber.

mbl.is