Hart slegist um ráspól

Lewis Hamilton á leið til ráspóls í Mexíkó.
Lewis Hamilton á leið til ráspóls í Mexíkó. AFP

Lewis Hamilton verður fremstur á rásmarkinu í Mexíkó á morgun og við hlið hans liðsfélaginn Nico Rosberg. Sviptingar voru meiri en oftast áður í ár í keppninni um ráspólinn.

Þannig var Max Verstappen hjá Red Bull efstur að lokinni annarri lotu og liðsfélagi hans Daniel Ricciardo þriðji. Var Rosberg aðeins fimmti þegar lokalotan hófst sem rímaði við mótlæti hjá honum á öllum æfingum helgarinnar þreumur.

Þegar mest reið á sýndi hann loks hvers hann er megnugur á Mercedesbílnum og smeygði sér upp í annað sætið er hann kláraði síðustu tímatilraunina á eftir öllum öðrum. Á sínum besta hring allrar helgarinnar tók hann þá fram úr báðum ökumönnum Red Bull og varð Verstappen þriðji og Ricciardo fjórði.

Nico Hülkenberg hjá Force India komst óvænt fram fyrir báða ökumenn Ferrari og hefur keppni af fimmta rásstað á morgun. Kimi Räikkönen var næstfljótastur eftir fyrstu lotu en náði sér aldrei á strik eftir það og varð sjötti. Sebastian Vettel liðsfélagi hans varð sjöundi, Valtter Bottasa hjá Williams áttundi, liðsfélagi hans Felipe Massa níundi og tíundi varð svo Carlos Sainz hjá Toro Rosso.

Hamilton, Vettel, Rosberg og Räikkönen hefja keppni á mjúku dekkjunum en hinir sex í hópi 10 fremstu á þeim ofurmjúku, sem ætti að gefa meira grip og betri rásafestu í upphafi kappakstursins. Verður spennandi að sjá hvort ofurmjúku dekkin dugi ökumönnum Red Bull til að skáka Hamilton og Rosberg á langa upphafskafla brautarinnar. Dekkjavalið gæti líka endurspeglað mismunandi herfæði liða og einstakra ökumanna og taktíkin því í fyrirrúmi í kappakstrinum á morgun. 

Nico Rosberg óskar Lewis Hamilton til hamingju með ráspólinn í …
Nico Rosberg óskar Lewis Hamilton til hamingju með ráspólinn í Mexíkó. AFP
Þrír fremstu eftir tímatökuna í Mexíkó (f.v.) Nico Rosberg, Lewis …
Þrír fremstu eftir tímatökuna í Mexíkó (f.v.) Nico Rosberg, Lewis Hamilton og Max Verstatppen. AFP
Max Verstappen ánægður eftir tímatökuna þar sem hann varð þriðji.
Max Verstappen ánægður eftir tímatökuna þar sem hann varð þriðji. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert