Stroll hefur Villeneuve sem viðmið

Jacques Villeneuve í keppnisgalla Williams 1997.
Jacques Villeneuve í keppnisgalla Williams 1997.

Lance Stroll verður á næsta ári ellefti nýliðinn til að hefja keppni í formúlu-1 hjá Williamsliðinu. Meðal forvera hans er landi hans Jacques Villeneuve sem er eini þessara sem hampað hefur heimsmeistaratign ökumanna í greininni.

Fyrsti nýliði Williams var Englendingurinn Jonathan Palmer en hann þreytti frumraun sína með liðinu í Evrópukappakstrinum 1983. Kom hann í mark í 13. sæti og var það eina keppnin hans með Williams.

Öllu lengur varð vist næsta nýliða, Skotans David Coulthard. Hann var vara- og þróunarökumaður er fluttist í sæti keppnismanns við andlát Ayrtons Senna, sem fórst í San Marinó-kappakstrinum í  Imola 1994. Spánarkappaksturinn var fyrsta keppni Coulthard sem  alls keppti 25 sinnum á tveimur árum. Besta árangri sínum náði hann í portúgalska kappakstrinum 1995 en þar fór hann með sigur af hólmi. Árið eftir fór hann til McLaren.

Button beint úr formúlu-3 í formúlu-1

Jacques Villeneuve leysti Coulthard af hólmi og ók í þrjú ár fyrir Williams. Varð hann annar í keppni  ökumanna á fyrsta ári sínu, en liðsfélagi hans Damon Hill hampaði titlinum 1996. Frumraun sína þreytti Villeneuve í Ástralíu. Mót hans fyrir Williams urðu alls 49 og vann hann sigur í 11 þeirra. Titil ökumanna vann hann árið eftir, 1997.

Með frægari nýliðum er Jenson Button sem þreytti frumraun sína í Melbourne árið 2000, nýorðinn tvítugur. Besta árangri í mótunum 17 á jómfrúarárinu var fjórða sætið í þýska kappakstrinum í Hockenheim. Benetton, sem varð Renault árið 2002, gerði sér lítið fyrir og nældi í Button frá Williams. Hann varð svo heimsmeistari ökumanna með Brawnliðinu árið 2009.

Rosberg byrjaði hjá Williams

Eins og Villeneuve kom Juan Pablo Montoya til Williams sem meistari í bandarískri  systurkeppni formúlu-1. Ók hann fyrir liðið í fjögur ár, 2001 til 2004. Mótin urðu 67 og vann hann fjögur þeirra.

Nýliði sem nú kveður mikið að í formúlunni og hóf keppni með Williams 2006 er Nico Rosberg. Dvaldi hann í herbúðum enska liðsins í fjögur ár en hefur keppt fyrir Mercedes frá 2010. Frumraun sína þreytti hann í Barein en árangurinn lét lengi á sér standa, enda Williamsbíllinn fremur ósamkeppnisfær á þessum tíma. Besta sæti hans í 70 mótum með Williams var annað sætið í Singapúr 2008.

Á þessum árum steig hver nýliðinn á fætur sín fyrstu skref í formúlunni með Williams. Árið 2007 Japaninn Kazuki Nakajima sem var í þrjú ár hjá liðinu og Nico Hülkenberg 2010. Fyrsta mót Nakajima af 36 var í Brasilíu 2007 og í Ástralíu á sömu keppnistíð varð hann sjötti í mark sem átti eftir að verða hans besta í keppni.

Maldonado síðasti sigurvegarinn

Hülkenberg hóf formúluferilinn í Barein og ók alls 19 sinnum fyrir Williams. Lengst náði hann í ungverska kappakstrinum, eða í sjötta sæti. Árið eftir hélt hann til Force India og annar nýliði tók við sæti hans, Pastor Maldonado. Sá ók í þrjú ár, alls 58 mót, og vann fyrsta mótssigur Willians um margra ára skeið í Barcelona vorið 2012. 

Loks þreytti Valtteri Bottas frumraun sína í formúlu-1 með Williams fyrir þremur árum, í Melbourne 2013. Hann verður áfram í herbúðum Williams á næsta ári. Mótin hans eru orðin 75 og tvisvar hefur hann komið í mark í öðru sæti, sem er hans besta; í Silverstone otg Þýskalandi 2014.

Lance Stroll
Lance Stroll
Mörgum árum seinna; Jacques Villeneuve (t.v.) og Damon Hill stinga …
Mörgum árum seinna; Jacques Villeneuve (t.v.) og Damon Hill stinga saman nefjum á formúlumóti.
David Coulthard hóf keppnisferil sinn í formúlu-1 hjá Williams vorið …
David Coulthard hóf keppnisferil sinn í formúlu-1 hjá Williams vorið 1994.
Jenson Button hóf keppni með Williams árið 2000.
Jenson Button hóf keppni með Williams árið 2000.
Juan Pablo Montoya vann fjögur mót sem ökumaður Williams.
Juan Pablo Montoya vann fjögur mót sem ökumaður Williams.
Nico Rosberg í keppnisgalla Williams.
Nico Rosberg í keppnisgalla Williams.
Kazuki Nakajima var í þrjú ár hjá Williams.
Kazuki Nakajima var í þrjú ár hjá Williams.
Nico Hülkenberg þreytti frumraun sína með Williams.
Nico Hülkenberg þreytti frumraun sína með Williams.
Pastor Maldonado er síðasti ökumaðurinn til að sigra í formúlu-1 …
Pastor Maldonado er síðasti ökumaðurinn til að sigra í formúlu-1 kappakstri á Williamsbíl.
Lance Stroll (l.t.v.) með Claire Williams liðsstjóra og Valtteri Bottas.
Lance Stroll (l.t.v.) með Claire Williams liðsstjóra og Valtteri Bottas.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert