Massa vill pallsæti á heimavelli

Felipe Massa vonast til að klára keppnina heima í Sao …
Felipe Massa vonast til að klára keppnina heima í Sao Paulo á háu nótunum. AFP

Felipe Massa getur ekkert hugsað sér betur í brasilíska kappakstrinum komandi helgi en komast á verðlaunapall í síðasta kappakstrinum á heimavelli á ferlinum.

Massa hefur ákveðið að segja skilið við formúlu-1 við vertíðarlok en hann er frá Sao Paulo í Brasilíu og ólst upp skammt frá kappakstursbrautinni annáluðu.

„Interlagos er heimili mitt,“ segir hann um brautina, „þar ólst ég upp.“ Á 15 ára ferli sínum hefur hann tvisvar hrósað sigri í Sao Paulo. Í bæði skiptin sem ökumaður Ferrari, eða árin 2006 og 2008. Þá komst hann líka á verðlaunapall 2007, 2012 og 2014.

„Það verður tilfinningaþrungið að keppa þar í síðasta sinn, á þessari dásamlegu braut. Ég hlakka til þess að njóta hvers einasta hrings og vonandi tekst mér að krækja í góð úrslit. Vonandi kemst ég eina ferðina enn á verðlaunapallinn. Það verður ekki auðvelt en ég mun gera allt sem ég get fyrir fólkið mitt og fyrir Brasilíu,“ segir Massa.


 

Felipe Massa er á sinni 15. og síðustu keppnistíð í …
Felipe Massa er á sinni 15. og síðustu keppnistíð í formúlu-1. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert