Ricciardo ekki til Mercedes

Daniel Ricciardo verður hjá Red Bull 2017 og 2018.
Daniel Ricciardo verður hjá Red Bull 2017 og 2018. AFP

Daniel Ricciardo útilokar að hann sé á leið til að taka við „hinu frábæra sæti“ hjá Mercedes og keppa við hlið Lewis Hamilton.

Í samtali við fréttastofuna Associated Press í Ástralíu segist Ricciardo skuldbundinn Red Bull  næstu tvö árin og muni helga sig því liði af einurð.

Mjög kom á óvart er Nico Rosberg tilkynnti rétt eftir að hafa unnið heimsmeistaratitil ökumanna í formúlu-1 að hann væri hættur keppni. Stjórnarformaður Mercedesliðsins, Niki Lauda, segir að um 90% allra ökumanna í formúlunni hafi látið í ljós áhuga á sætinu og boðið fram krafta sína.

Ricciardo segist skilja vel áhuga keppinauta sinna á sæti hjá Mercedes en segist sjálfur ætla helga Red Bull krafta sína keppnistíðirnar 2017 og 2018. „Ég á eftir tvö ár af samningi við Red Bull og þar á bæ verð ég áfram,“ sagði Ricciardo við AP í heimabæ sínum, Perth, í Ástralíu.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert