Hamilton vann harðan slag

Lewis Hamilton var í þessu að vinna ráspól kínverska kappakstursins eftir harðan slag við liðsfélaga sinn Valtter Bottas og Ferrarimennina Sebastian Vettel og Kimi Räikkönen.

Ráspóllinn er sá sjötti sem Hamilton vinnur í kínverska kappakstrinum í Sjanghæ.

Vettel hafði annað sætið eins naumlega og unnt var því aðeins einn þúsundasti úr sekúndu greindi hann og Bottas að. Räikkönen varð svo þriðji en í annarri lotu ók hann hraðast og setti í leiðinni nýtt brautarmet í Sjanghæ, 1:32,181 mín.

Ók hann svo aftur undir metinu í þriðju og síðustu lotu (1:32,140) en það dugði skammt því Hamilton (1:31,678), Vettel (1:21,864) og Bottas (1:31,865) gerðu það allir líka.

Í sætum fimm til tíu urðu svo Daniel Ricciardo á Red Bull, Felipe Massa á Williams, Nico Hülkenberg á Renault, Sergio Perez á Force India, Daniil Kvyat á Toro Rosso og loks nýliðinn Lance Stroll hjá Williams. Er þetta aðeins annar kappakstur hans á ferlinum í formúlu-1 en í þeim fyrsta lagði hann af stað af öftustu rásröð.

Max Verstappen hjá Red Bull varð fyrir bilun í fyrstu lotu tímatökunnar og endaði í aðeins 19. sæti.

Athygli vekur frammistaða Nico Hülkenberg hjá Renault sem hefur keppni í sjöunda sæti á morgun sem er besti árangur Renault frá því  liðið mætti aftur til leiks undir eigin nafni í fyrra. Sleppi hann þó seinni tímatilrauninni í þriðju og síðustu lotu tímatökunnar. Hefur hann keppni sæti framar en liðsfélagi hans frá í fyrra, Sergio Pererz hjá Force India, og næst á eftir Felipe Massa hjá Williams, sem varð sjötti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert