Vettel aftur fljótastur

Sebastian Vettel í Barein í dag.
Sebastian Vettel í Barein í dag. AFP

Sebastian Vettel á Ferrari réði manna best við brennandi hita og sól í Barein í dag er hann ók hraðast á seinni æfingu dagsins rétt sem þeirri fyrri. Annar varð Valtteri Bottas hjá Mercedes og þriðji Daniel Ricciardo.

Aðeins munaði 41 þúsundasta úr sekúndu á Vettel (1:31,310) og Bottas (1:31,351) og 66 þúsundustu á milli Vettels og Ricciardo (1:31,376). Munurinn því ennþá minni en á fyrri æfingunni. Brautartímarnir voru yfirleitt tveimur sekúndum betri á seinni æfingunni.

Í sætum fjögur til tíu urðu - í þessari röð - Kimi Räikkönen á Ferrari, Lewis Hamilton á Mercedes, Nico Hülkenberg á Renault, Felipe Massa á Williams, Max Verstappen á Red Bull, Romain Grosjean á Haas og Daniil Kvyat á Toro Rosso. 

Til marks um það hvað seinni æfingin var jafnari þá munaði 1,4 sekúndum á besta hring Vettels og hraðasta hring Kvyat.

mbl.is