Bottas lagði Hamilton

Finnski ökumaðurinn Valtteri Bottas á Mercedes var í þessu að vinna ráspól kappakstursins í Barein. Velti hann liðsfélaga sínum, Lewis Hamilton, úr toppsætinu í síðustu tímatilrauninni. Þriðji varð svo Sebastian Vettel á Ferrari.

Ráspóllinn er sá fyrsti á ferli Bottas og hefur Mercedesliðið hreppt ráspólinn í öllum þremur fyrstu mótunum í ár. Með árangri sínum kom Bottas í veg fyrir að Hamilton ynni sinn sjöunda pól í röð og ógnaði ráspólameti Ayrton Senna sem á sínum tíma vann átta í röð.

Í sætum fjögur til sex urðu Daniel Ricciardo á Red Bull, Kimi Räikkönen á Ferrari og Max Verstappen sem slóst um toppsætið í fyrri umferðum tímatökunnar en hafði ekki erindi sem erfiði í lokalotunni. 

Ökumenn Renault komu mjög á óvart með því að aka báðir alla leið í þriðju og síðustu lotu. Nico Hülkenberg varð í sjöunda sæti og  Jolyon Palmer í því tíunda en þetta er í fyrsta sinn á ferlinum sem hann kemst í þriðju og síðustu lotuna. Milli þeirra Renaultmannanna urðu Felipe Massa hjá Williams og Romain Grosjean hjá Haas.

Nokkuð jafnt var á með þeim Bottas og Hamilton því í annarri lotu munaði aðeins 20 þúsundustu úr sekúndu á þeim. og 23 þúsundustu í lokalotunni. Báðir voru þeir undir brautarmetinu og það voru Vettel og Ricciardo líka.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert