Verstappen fremstur í jöfnum slag

Max Verstappen í bíl sínum milli aksturslota í Barein.
Max Verstappen í bíl sínum milli aksturslota í Barein. AFP

Max Verstappen á Red Bull setti besta tímann á þriðju og síðustu æfingu fyrir tímatökuna í Barein.  Tíunda úr sekúndu hægar ók Lewis Hamilton á Mercedes og þriðja tímann átti Sebastian Vettel á Ferrari.

Bestu hringir voru mjög jafnir fram eftir æfingunni og munaði til að mynda aðeins 51 þúsundusta úr sekúndu á milli fjögurra efstu þegar um 10 mínútur voru eftir. Breyttist staðan svo í síðustu atlögum fremstu þriggja.

Í sætum fjögur til tíu - í þessari röð - urðu Valtteri Bottas á Mercedes, landi hans Kimi Räikkönen á Ferrari, Felipe Massa á Williams, Daniel Ricciardo á Red Bull, Nico Hülkenberg á Renault og svo Carlos Sainz og Daniil Kvyat hjá Toro Rosso. 

mbl.is