Vettel óbifanlegur

Sebastian Vettel á Ferrari var í þessu að vinna sigur í kappakstrinum í Barein og er það annar sigur hans í þremur fyrstu mótum ársins. Réði hann ferðinni eftir að hafa unnið sig fram úr ráspólshafanum Valtteri Bottas á Mercedes sem endaði í þriðja sæti, einu á undan liðsfélaga sínum Lewis Hamilton.

Sigurinn er sá 44. á ferlinum í formúlu-1 hjá Vettel en kappaksturinn var einstaklega spennandi og sviptingasamur frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Bottas var beittur liðsfyrirmælum og gert að hleypa Hamilton fram úr til að reyna draga Vettel uppi og leggja hann að velli. Bilið var alltof mikið til að það gengi upp. Brúaði Hamilton það ekki nema til hálfs.

Hamilton hóf keppni í öðru sæti en ræsingin mistókst að því leyti hjá honum  að Vettel komst fram úr og hóf þegar eftirför eftir Bottas. Eftir seinna dekkjastopp sitt sótti Hamilton afar grimmt og vann sig upp í annað sætið. Minnkaði hann forskot Vettels mjög hratt en að því kom að dekkin þoldu ekki álagið og bilið jókst aðeins aftur.

Hamilton var refsað fyrir fyrra dekkjastopp sitt, meðan öryggisbíll var í brautinni. Þurfti hann að bíða meðan Bottas var þjónustaður og til að lágmarka þann tíma sem bíllinn með sjóðheita vél væri kyrrstæður á bílskúrasvæðin tók hann til þess bragðs að hægja mjög á sér í innreininni. Með því tafði hann fyrir Daniel Ricciardo og refsingin var að hann þurfti að bíða 5 sekúndur kyrrstæður áður en vélvirkjarnir gátu þjónustað hann. Hvort þetta atvik hafi kostað hann sigur er spurning sem aldrei fæst svar við.

Með sigrinum tekur Vettel forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna en fyrir mótið voru þeir Hamilton jafnir að stigum.

Max Verstappen var í keppni um fremstu sæti er hann féll úr leik rétt eftir dekkjastopp. Gáfu bremsurnar sig er hann var á leið inn í beygju á úthring og hafnaði hann á öryggisvegg og féll úr leik.

Í sætum fjögur til sex urðu Kimi Räikkönen á Ferrari, Daniel Ricciardo á Red Bull og Felipe Massa á Williams. Fyrsta tuginn fylltu svo Sergio Perez á Force India, Romain Grosjean á Haas, Nico Hülkenberg á Renault og Esteban Ocon á Force India.

Martröð hjá McLaren

Stoffel Vandoorne hjá McLaren var kallaður inn í bílskúr eftir upphitunarhring kappakstursins vegna vélarbilunar. Á síðustu hringjunum brást vélin einnig í bíl Fernando Alonso sem varð einnig að hætta, en þá voru aðeins þrír hringir eftir.

mbl.is

Bloggað um fréttina