Vettel keppir í sokkum

Kappaksturssokkarnir sem Vettel ætlar að brúka í Sotsjí á sunnudag.
Kappaksturssokkarnir sem Vettel ætlar að brúka í Sotsjí á sunnudag.

Rússneski kappaksturinn í Sotsjí á sunnudag verður nokkuð óvenjulegur fyrir Sebastian Vettel hjá Ferrari, því þar mun hann keppa í sokkum en ekki skóm.

Um er að ræða svonefnda „kappaksturssokka“ sem Puma-fyrirtækið hefur verið að þróa. Líkjast þeir sokkum meira en skóm, eru án reima. Hann ætlaði að nota þá í fyrsta móti ársins, í Melbourne, en sokkarnir höfðu ekki hlotið náð fyrir augum Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) þegar það mót rann upp.

FIA þurfti að ganga úr skugga um að sokkarnir storkuðu ekki öryggi ökumanns og bíla.  Saman vega þeir aðeins 135 grömm en þeir eru „prjónaðir“ úr þræði með mikið hitaþol. 

Vettel mun hafa komið mjög við sögu hönnunar og þróun keppnissokka þessa, að sögn talsmanns Puma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert