Báðir Ferrari á fremstu rásröð

Ferrariliðið virðist drottnandi í Sotsjí en þar fer rússneski kappaksturinn á morgun. Sebastian Vettel vann ráspólinn í tímatökunni í dag  og Kimi Räikkönen varð annar. Þriðji varð landi hans Valtteri Bottast hjá Mercedes, 36 þúsundustu úr sekúndu á eftir.

Þetta er í fyrsta sinn síðan á keppnistíðinni 2008 að báðir Ferraribílarnir eru á fremstu rásröð við upphaf kappaksturs. Og í fyrsta sinn frá í september 2015 að Ferrari er á ráspól.

Räikkönen var í efsta sætinu eftir fyrri tímatilraunina í lokalotunni en Vettel skaust svo fram úr í seinni atlögunni. Munaði aðeins 59 þúsundustu úr sekúndu á þeim.

Athygli vekur, að Lewiss Hamilton hjá Mercedes varð aðeins fjórði, hálfri sekúndu á eftir liðsfélaga sínum Bottas.

Í sætum fjögur til tíu urðu Daniel Ricciardo hjá Red Bull, Felipe Massa hjá Williams, Max Verstappen hjá Red Bull, Nico Hülkenberg hjá Renault og loks þeir Sergio Perez og Esteban Ocon hjá Force India, sem komst í fyrsta sinn á ferlinum í þriðju umferð tímatöku. Munaði rúmum tveimur sekúndum á fyrsta og tíunda sætinu.

Jolyon Palmer hjá Renault féll úr leik í fyrstu lotu í þriðja mótinu á fjórum vikum. Ók hann of langt upp á beygjubríkur með þeim afleiðingum að bíllinn hentist á loft og rann á öryggirðingar. Laskaðist hann talsvert en um var að ræða nýjan bíl sem settur var saman síðastliðna nótt. Í honum var einnig ný vél en skipt var um hana eftir þriðju æfingu helgarinnar vegna aflmissis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert