Með vél í ferðatösku

Christian Horner liðsstjóri Red Bull var með harla óvenjulegan hlut í ferðatösku sinni er hann flaug frá Bretlandi til Rússlands í vikunni. Voru það hlutar af keppnisvél sem Max Verstappen mun brúka í rússneska kappakstrinum í Sotsjí.

„Hlutur í vélina gleymdist við pökkun en til allrar hamingju náðu gæjarnir hjá Renault að senda þá til Bretlands og ég fékk að fara gegnum rússneska tollinn með þá. Það var ekki auðvelt að útskýra fyrir rússneskum tollara hvað var á seyði en hann virtist þó átta sig,“ sagði Horner um flutninginn óvenjulega.

Þrátt fyrir vélarhlutann býst hann ekki við miklum árangri sinna manna í Sotsjí, segir fimmta og sjötta sæti ætti að vera raunveruleg. Á því gæti orðið breyting í Spánarkappakstrinum 14. maí en þá tekur liðið umfangsmikla uppfærslu á undirvagni keppnisbílsins í notkun. Horner telur alla vega að þá verði bíll Red Bull mun samkeppnisfærari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert