Hamilton aftur efstur á blaði

Lewis Hamilton hjá Mercedes ók hraðast á seinni æfingu dagsins í Barcelona, rétt eins og á þeirri fyrri. Liðsfélagi hans Valtteri Bottas var 90 þúsundustu úr sekúndu lengur með hringinn og keppinautarnir drógu á þá, miðað við tíma á fyrri æfingunni.

Þannig munaði nú 1,5 sekúndum á fyrsta sæti og því tíunda en á morgunæfingunni munaði þar 2,5 sekúndum. Sömuleiðis var Kimi Räikkönen hjá Ferrari aðeins 0,2 sekúndum á eftir landa sínum Bottas og Sebastian Vettel var 0,1 sekúndu lengur en Ferrarifélagi hans með hringinn í fjórða sæti.

Í sætum fimm til tíu á lista yfir hröðustu hring - í þessari röð - urðu Max Verstappen og Daniel  Ricciardo hjá Red Bull, Nico Hülkenberg og Jolyon Palmer hjá Renault, Felipe Massa hjá Williams og Carlos Sainz á Toro Rosso.

Hülkenberg sýndi framfarir í Renaultbílnum og var síðasti ökumaðurinn sem var innan við sekúndu á eftir Hamilton.

Heimamaðurinn Fernando Alonso hjá McLaren gat ekkert ekið á fyrri æfingunni vegna bilunar og á þeirri seinni ók hann manna hægast. 

mbl.is