Ferrari tekur völdin

Kimi Räikkönen hjá Ferrari ók hraðast á lokaæfingunni fyrir tímatökuna í Barcelona, var 0,2 sekúndum á undan liðsfélaga sínum Sebastian Vettel og tæplega 0,4 sekúndur á undan Lewis Hamilton hjá Mercedes, sem fór hraðast á báðum æfingum gærdagsins.

Tímar ökumannanna voru í öllum tilvikum betri en í gær. Í næstu þremur sætum urðu Valtteri Bottas hjá Mercedes og Red Bull félagarnir Max Verstappen og Daniel Ricciardo, en síðastnefndi var sekúndu lengur í förum en Räikkönen.

Í sætum sjö til tíu urði Nico Hülkenberg hjá Renault, Felipe Massa hjá Williams, Carlos Sainz hjá Toro Rosso og Fernando Alonso hjá McLaren. Var frammistaða hans óvænt eftir vandræði og bilanir í gær sem gerðu að verkum að hann gat ekið miklu minna en allir aðrir ökumenn. Var Alonso tæplega tveimur sekúndum lengur með hringinn en Räikkönen. Ti marks um jafnir bílarnir á miðjunni og þar fyrir aftan eru munaði 0,9 sekúndum á tíma Alonso og þess ökumanns er varð í tuttugasta sæti. 

mbl.is