Tólfta þrenna Hamiltons

Lewis Hamilton klifrar upp tölfræðitöflur formúlu-1 með nánast hverju mótinu sem líður. Vann hann eina þrennuna enn í Spánarkappakstrinum og eru þær orðnar 12 á ferlinum.

Með þrennu er átt við að vinna ráspól, vinna kappaksturinn sjálfan og setja hraðasta hring hans í leiðinni. 

Sama afrek vann hann í Kínakappakstrinum fyrr á keppnistíðinni og jafnaði hann þar með afrek landa síns Jim Clark sem á sínum tíma vann ellefu þrennur. Þess má geta að mótin voru mun færri í þá daga.

Sigursælastur í þessum efnum er Michael nokkur Schumacher sem landaði 22 þrennum á keppnisferli sínum.

Hamilton vantar aðeins einn ráspól til viðbótar til að jafna árangur brasilísku goðsagnarinnar Ayrton Senna sem á sínum tíma vann 65 ráspóla. Metið í þeim efnum á Schumacher einnig eða 69 póla.

Af núverandi ökumönnum hefur Sebastian Vettel unnið átta þrennur, Fernando Alonso fimm, Felipe Massa fjórar og Kimi Räikkönen tvær.

Aðrir ökumenn en framangreindir sem unnu þrennur á ferlinum eru: Juan Manuel Fangio (9), Alain Prost (8), Alberto Ascari (7), Ayrton Senna (7), Nigel Mansell (5) og Damon Hill (5).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert