„Annað sætið bragðast illa“

Því var fjarri að Kimi Räikkönen væri ánægður eftir kappaksturinn í Mónakó. Þrátt fyrir annað sætið sögðu vonbrigðadrættir í andliti hans meiri sögu en í löngum texta verður fyrir komið.

Räikkönen hóf keppni af ráspól og var fyrstur þar til hann fór inn að bílskúr Ferrari til dekkjaskipta á 33. hring. Liðsfélagi hans Sebastian Vettel var í brautinni sex hringjum lengur og gerði það honum kleift að komast naumlega fram úr Räikkönen.

„Það er erfitt að segja, fyrir liðið er niðurstaðan góð en ekki fyrir sjálfan mig,“ svaraði finnski ökumaðurinn spurður um hvað honum fannst um hvernig keppnin endaði.

„Þetta er að vísu annað sætið, en það bragðast samt ekkert sérstaklega vel. Það er ekki mikið sem ég get sagt. Annað sætið er það eftir allt en það verður ekki hátt skrifað í mínum bókum alla vega. Svona fer þetta stundum, við förum til næsta móts og reynum að gera betur. Þetta var einn af þessum dögum sem maður vildi gera aðeins betur,“ sagði Räikkönen.

Sem forystumaður í brautinni átti Räikkönen forgang varðandi dekkjastoppataktíkina. Er hann kom út úr sínu voru hægfara bílar í vegi hans og héldu aftur af honum. Betri árangri skilaði að halda lengur út eins og Vettel sýndi fram á. Hið sama er að segja um Daniel Ricciardo hjá Red Bull sem vann sig upp um tvö sæti með því að draga dekkjastoppið líka.

„Ég var kallaður inn, auðvitað höfðu þeir ástæður fyrir því en það er ekki mitt að svara fyrir þær. Ég er að reyna að átta mig á einhverju sem útilokað er að vita núna, alla vega svona utan frá,“ sagði Räikkönen spurður um herfræðibragðið. „Ég hef ekki séð stóru myndina, veit aðeins að ég varð annar í mark.

Auðvitað var það ekki það besta að lenda á eftir bíl sem var meira en hring á eftir. Slíkt hjálpar alls ekki. En niðurstaðan er þessi, meira veit ég ekki, við vorum að koma í mark. Held að allt sem gerist eigi sínar orsakir, en við verðum að bíða og sjá,“ bætti hann við.

Vangaveltur eru nú á fleygiferð á vettvangi formúlunnar þess efnis að Räikkönen hafi klárlega verið fengið hlutverkið „ökumaður númer tvö“ hjá Ferrari. Sé það rétt verður hlutskipti hans það sem eftir er keppnistíðar að styðja við bakið á  Vettel í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

Sjálfur segir Räikkönen það lykil atriði að treysta því sem liðsstjórarnir mæli fyrir um í talstöðinni varðandi herfræði. „Við vinnum saman sem lið. Hafir þú ekki trú á því sem þér er  sagt verður flækjustigið hátt. Við reynum alltaf að gera okkar besta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert