Wolff: Sigur Vettels ekki sviðsettur

Sebastian Vettel (í miðjunni) fagnar sigri á verðlaunapallinum í Mónakó. …
Sebastian Vettel (í miðjunni) fagnar sigri á verðlaunapallinum í Mónakó. Daniel Ricciardo (t.h.) er einnig brosmildur en svekkelsið skín úr andliti Kimi Räikkönen. AFP

Mercedesstjórinn Toto Wolff segist ekki þeirrar trúar að Ferrari hafi beitt brögðum til að færa Sebastian Vettel sigur í Mónakó á kostnað Kimi Räikkönen.

Vettel náði forystunni með því að bíð a mun lengur með dekkjaskipti en Räikkönen. Eftir það reyndist Vettel mun hraðskreiðari á notuðu setti af ógurmjúkum dekkjum en Räikkönen á nýju og ónotuðu setti af ofurmjúkum dekkjum, sem eru ögn harðari en mjúkdekk Vettels.

Vettel segir að aðstæður hefðu spilast honum í hag og engum brögðum hafi verið beitt til að bæta stöðu hans í keppninni við Lewis Hamilton hjá Mercedes um heimsmeistaratitil ökumanna.

Toto Wolff segist sammála landa sínum Vettel. „Það var ekki á hreinu hvernig dekkin myndu spjara sig. Í ljós kom að ofurmjúku dekkin voru ekki nógu hröð og fyrir tilstilli nokkurra frábærra hringja tókst Sebastian á notuðum ógurmjúku dekkjunum að ná yfirhöndinni gegn Kimi.

Ég held ekki að þeir hafi séð hvernig þetta myndi leggjast út. Þegar öllu er á botninn hvolft voru úrslitin þau bestu fyrir liðið og titilkeppnina, en ég held þetta hafi ekki verið neitt ráðabrugg,“ segir Wolff.

Hamilton er aftur á móti á annarri skoðun og segir augljóst af niðurstöðunni í Mónakó, að Ferrari hafi tekið Vettel fram yfir Räikkönen.

Ferrari er nú með 17 stiga forskot á Mercedes í keppni bílsmiða og Vettel með 25 stiga forskot á Vettel í keppni ökumanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert