65. ráspóll Hamiltons á sigurafmæli

Lewis Hamilton hjá Mercedes „skalf“ þrunginn af tilfinningum er honum var afhentur keppnishjálmur sem brasilíska goðsögnin Ayrton Senna brúkaði á sínum tíma. Hamilton jafnaði árangur Senna með því að vinna sinn 65. ráspól í dag.

Ráspólin vann Hamilton í Montreal í Kanada í dag, en nákvæmlega upp á dag fyrir áratug vann hann sinn fyrsta mótssigur í formúlu-1, einmitt í Gilles Villeneuve brautinni á eyju í Lárusarfljóti í Montreal.

Eftir slaka frammistöðu á æfingum helgarinnar var Hamilton óvinnanlegur í tímatökunni. Að vísu munaði aðeins fjórum þúsundustu á þeim Sebastian Vettel hjá Ferrari þegar Ferrariþórinn hafði lokið tímatilraunum sínum. Hamilton átti eina inni og bætti um betur í henni, setti nýtt met í brautinni, 1:11,459 mínútur.

Í þriðja sæti á rásmarki verður Valtteri Bottas liðsfélagi Hamiltons og Kimi Räikkönen hjá Ferrari fjórði. Í sætum 5 til 10 - í þessari röð - urðu þeir Max Verstappen og Daniel Ricciardo hjá Red Bull, Felipe Massa hjá Williams, Sergio Perez og Esteban Ocon hjá Force India og Nico Hülkenberg hjá Renault.

mbl.is