Räikkönen: Ekkert mál að hjálpa Vettel

Kimi Räikkönen hjá Ferrari segir að ekkert sé því til fyrirstöðu af hans hálfu að hjálpa liðsfélaganum Sebastian Vettel í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna, ef og þegar hans eigin möguleikar á titlinum séu úr kortunum.

Vettel er með 12 stiga forskot á Lewis Hamilton hjá Mercedes í titilslagnum eftir að hafa unnið þrjú mót, þrisvar orðið annar og einu sinni í fjórða sæti í fyrstu sjö mótum keppnistíðarinnar.

Räikkönen er vel á efir Vettel í fjórða sæti með 68 stig eftir að hafa aðeins tvisvar komist á verðlaunapall, í Sotsjí í Rússlandi og Mónakó.

Räikkönen leggur áherslur á að reglur Ferrari „séu afar skýrar“ og hann muni því hjálpa Vettel ef og þegar hann sjálfur á ekki lengur stærðfræðilega möguleika á titlinum.

„Í liðinu eru fyrir hendi afar skýrar reglur um hvað leyfist og hvað leyfist ekki, til hvers sé ætlast til af okkur. Eftir þessum reglum er starfað,“ segir  Räikkönen. Hann segir að megin atriðið um þessar mundir sé að tryggja Ferrariliðinu toppsætið í keppni liðanna. Sem stendur er Mercedes með átta stiga forskot á Ferrari í þeim slag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert