Hamilton færist aftur

Við Lewis Hamilton hjá Mercedes blasir að verða færður aftur um fimm sæti á rásmarkinu eftir tímatöku austurríska kappakstursins í Spielberg á morgun.

Ástæðan eru ótímabæ gírkassaskipti vegna bilunar en þann búnað verða ökumenn að brúka sex mót í röð án skipta. Breyting þar á hefur sjálfkrafa í för með sér afturfærslu á rásmarki. Slík afturfærsla á sér þó ekki stað hafi ökumaður orðið að hætta í næsta móti á undan vegna bilunar.

Hamilton ók hraðast á báðum æfingunum í Spielberg í dag og verði sú raunin einnig í tímatökunni er útlit fyrir að hann þurfi að hefja keppni í sjötta sæti.

Hamilton mætti til leiks í Spielbereg vitandi af þessum vanda því Mercedesliðið tilkynnti yfirvöldum formúlunnar um hin nauðsynlegu gírkassaskipti með tilkynningu sl. þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert