Bottas tók pólinn á nýju meti

Valtteri Bottas hjá Mercedes var í þessu að vinna ráspól kappakstursins í Spielberg í Austurríki. Í leiðinni gerði hann sér lítið fyrir og setti nýtt brautarmet. Annar varð Sebastian Vettel hjá Ferrari og þriðji Lewis Hamilton hjá Mercedes en hann fellur niður í áttunda sæti á rásmarkinu.

Keppnin um ráspólinn stóð allan tímann milli þessara þriggja framangreindu ökumanna, aðrir blönduðu sér þar hvergi í en háðu samt mikla stöðubaráttu um önnur sæti á rásmarkinu.

Skipta var um gírkassa í bíl Hamiltons fyrr en hann hefði mátt án vítis og því færist hann úr þriðja sætinu í það áttunda á rásmarki morgundagsins.

Besti tími Bottas mældist 1:04,251 mínútur og var Vettel aðeins 42 þúsundustu úr sekúndu lengur með hringinn (1:04,293). Hamilton var rúmu sekúndubroti lengur í förum á 1:04,424 mín.  

Ráspóllinn er sá annar sem Bottas vinnur á keppnisferli sínum í formúlu-1. Sá fyrsti sá dagsins ljós í kappakstrinum í Barein. Hefur hann og keppni meðal þriggja fremstu níunda mótið í röð.

Í sætum fjögur til tíu - í þessari röð - urðu Kimi Räikkönen (1:04,779) hjá Ferrari, Daniel  Ricciardo (1:04,896) og Max Verstappen (1:04,983) hjá Red Bull, Romain Grosjean (1:05,480) hjá Haas, Sergio Perez (1:05,605) og Esteban Ocon (1:05,674) hjá Force India og Carlos Sainz (1:05,726) hjá Toro Rosso.  

Í keppninni um að komast í lokalotuna féllu Nico Hülkenberg hjá Renault, Fernando Alonso og Stoffel Vandorne hjá McLaren, Daniil Kvyat hjá Toro Rosso og Kevin Magnussen hjá Haas úr leik í annarri lotu tímatökunnar.

mbl.is