Vettel fær væna summu taki hann boði

Ferrari hefur lagt nýjan samning fyrir Sebastian Vettel og samkvæmt ákvæðum hans verður Vettel ekki á flæðiskeri staddur taki hann boðinu.

15 milljarðar í kaup fyrir næstu þrjú árin verður hlutur Vettels samþykki hann að vera áfram í herbúðum Ferrari út árið 2020.  

Orðrómur hefur verið á kreiki þess efnis að Vettel kunni að fara til keppinautanna hjá Mercedes. Að sögn ítalska akstursíþróttaritsins Autoweek er samningstilboðinu nýja og risastóra ætlað að slá allar hugmyndir um Mercedesför Vettels útaf borðinu.

Ferrariforstjórinn Sergio Marchionne hefur látið þau ummæli falla að ekkert vantaði upp á annað en að Vettel tæki samningsboðinu, þá væri framtíð hans hjá Ferrari tryggð.

Sjálfur hefur Vettel varist fregna af samningamálum sínum en verði hann áfram í herbúðum Ferrari þykir líklegt að Kimi Räikkönen verði það líka, allavega á næsta ári.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert