Sauber áfram með Ferrarivélar

Sauberliðið hefur hætt við að brúka vélar frá Honda í bíla sína næstu árin. Hefur liðið nú ákveðið að halda áfram samstarfi við Ferrari.

Framan af þessu ári hefur Sauber undirbúið að fá vélar frá Honda 2018 en því hefur verið hætt og samstarfið við Ferrari, sem staðið hefur yfir frá 2010, verið framlengt. Ferrari sá Sauber einnig fyrir vélum á árabilinu 1997-2005.

Á árunum 2010-16 brúkaði Sauber vélar viðkomandi árs en í ár eru ársgamlar útgáfur í bílunum. Nýr aðalstjórnandi liðsins, Frakkinn Frederic Vasseur, segist búast við miklu af áframhaldandi  samstarfi við Ferrari.

mbl.is